24.02.2023
Það var hattaball á Grund á öskudag. Eins og venjulega þegar Grundarbandið mætir var mikið fjör í hátíðarsalnum og rúsínan í pylsuendanum var svo að hafa dásemdar söngkonuna Hjördísi Geirs með í hópnum. Frábær stund.
23.02.2023
Á miðvikudögum er boðið upp á morgunstund í hátíðarsal Grundar. Í gær mætti söngkonan Ásta Kristín Pétursdóttir og gladdi okkur með söng. Eftir hádegi kom leikhópur Kvennaskólans í heimsókn, Fúría og söng lög úr sýningunni Ó Ásthildur sem þau eru að setja upp í mars. Takk kærlega fyrir komuna.
20.02.2023
Þór Pálsson framkvæmdastjóri hjá Rafmennt kom færandi hendi á Grund með 15 spjaldtölvur sem voru gjöf til Grundarheimilanna.
Rafmennt hefur gefið nemendum sem hefja grunnnám rafiðngreina spjaldtölvu til eigna. Á seinasta ári var ákveðið að breyta um styrk til grunnnámsnema. Þessi spjöld eru afgangur frá þessu verkefni og ákvað stjórn Rafmenntar að gefa þau til góðgerðarmála.
Á myndinni er Þór Pálsson fyrir miðju og Sigríður Sigurðardóttir og Kjartan Örn Júlíusson sitt hvoru megin að taka við þessari rausnarlegu gjöf. Rafmennt er þakkað af heilum hug fyrir spjaldtölvurnar og hulstrin sem fylgdu. Þær eiga eftir að koma sér mjög vel á Grundarheimilunum þremur.
18.02.2023
Konudagurinn er á morgun, sunnudag og við tókum aðeins forskot á sæluna í gær og gáfum öllum heimiliskonum Grundarheimilanna rós. Á morgun verður svo boðið upp á konudags ostaköku og konfekt með kaffinu.
17.02.2023
Lífshlaupið er hafið. Starfsfólk iðju- og sjúkraþjálfunar í Mörk hefur farið um húsið eins og stormsveipur með léttar og skemmtilegar æfingar í vikunni,
Það hafa verið frábærar viðtökur bæði hjá heimilis- og starfsfólki.
17.02.2023
Lífshlaupið er hafið í Ási…. Alla vikuna hefur starfsfólk Iðjuþjálfunar ásamt íþróttafræðingnum okkar farið um heimilið með léttar og skemmtilegar æfingar sem allir hafa haft gaman af að spreyta sig á.
15.02.2023
Það eru fjölbreyttar æfingar sem heimilisfólkið okkar á Grund tekst á við dag hvern og andrúmsloftið létt og skemmtilegt. Nú er sundlaugin okkar líka að komast í gagnið aftur eftir Covid og lagfæringar.
14.02.2023
Á morgun, miðvikudaginn 15. febrúar, hefst að öllu óbreyttu verkfall hjá vörubílstjórum og bílstjórum olíudreifingar. Það mun að öllum líkindum hafa einhver áhrif á starfsemi Grundarheimilanna og því miður má gera ráð fyrir skerðingu á þjónustu og starfsemi. Við höfum tryggt eldsneyti í nokkrar vikur til að tryggja flutning á matvælum og þvotti milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Ennfremur er birgðastaða nokkuð góð hjá okkur bæði hvað varðar mat og hjúkrunarvörur og sumir birgjar eru með rafmagnsbíla. Þá höfum við aðgang að nokkrum rafmagnsbílum og strætó hefur gefið út að þeir hafi eldsneytisbirgðir í tíu til fjórtán daga. Grundarheimilin eru aðili að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og hafa þau sótt um undanþágur fyrir starfsfólk aðildarfélaga að eldsneyti og lagt áherslu á að samgöngutæki fái að ganga. Binda samtökin vonir við að þær undanþágur verði veittar. Að sjálfsögðu munum við eftir bestu getu reyna að draga úr áhrifum verkfallsins á starfsemi Grundarheimilanna.
01.02.2023
Stefnt er að því að hefja í vor framkvæmdir við laufskála/kaffihús við Grund á Hringbraut. „Vonandi tekst okkur að opna kaffihúsið öðrum hvorum megin við áramótin næstu,“ segir Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna í samtali við Morgunblaðið í gær, mánudag.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut. Um er að ræða 112 fermetra hús og 520 fermetra lóðarfrágang. Kostnaðaráætlun er rúmlega 150 milljónir króna. Laufskálinn verður sjálfstæð bygging sem tengist aðalbyggingunni með yfirbyggðum gangi. Þarna verður kaffihús fyrir heimilisfólk og aðstandendur, leiksvæði fyrir börnin og hægt að opna út á verönd og sitja þar í sólinni. Í umsókn ASK-arkitekta til borgarinnar kemur fram að laufskálinn/ garðskálinn og útivistarsvæði séu hugsuð sem dvalarsvæði fyrir íbúa Grundar, þar sem þeir geti tekið á móti gestum í skjólsælu og sólríku umhverfi. Leiksvæði, gönguleiðir og dvalarsvæði uppfylli skilyrði um aðgengi fyrir alla. Þá geti viðburðir farið þarna fram, eins og tónleikar. Hönnun lóðarinnar er unnin af Landslagi ehf.
26.01.2023
Kristján Sigurðsson kom reglulega á aðra hæð í Mörk þegar tengdamóðir hans Lára Þorstensdóttir var þar heimiliskona. Eftir að hún lést hefur hann haldið tryggð við hæðina og mætir oft til okkar með gítarinn og tekur lagið. Það eru sannkallaðar gleðistundir þegar Kristján kemur í heimsókn.