28.12.2022
Fyrir löngu var til siðs hér á Grund að fá í heimsókn lúsíu og þernur hennar á aðventunni. Þær gengu um húsið og sungu sænsk og íslensk jólalög með lifandi kertaljós í hendi og lúsían sjálf með kertakrans á höfði. Í ár var ákveðið að endurvekja þennan gamla sið.
Lúsía og þernur hennar mættu og gengu um húsið og sungu jólalög undir stjórn Mariu Cederborg
27.12.2022
Rebekka efndi til samsöngs einn kaldan daginn á aðventu þar sem jólalögin voru sungin og henni til aðstoðar voru stórskemmtilegir jólaálfar. Það er svo notalegt þegar starfsfólkið bryddar upp á einhverju skemmtilegu eins og þessu. Takk Rebekka og jólaálfar.
27.12.2022
Það komu ótrúlega margir gestir til okkar á Grund nú fyrir jólin, sungu jólalögin, léku á hljóðfæri, lásu og styttu fólkinu okkar stundir með ýmsum hætti. Þar á meðal var t.d. sönghópurinn Spectrum, félagar sem spila með lúðrasveitinni Svan, Grundarbandið, Skólahljómsveit Vestur,- og miðbæjar, börnin í Landakotsskóla, Laufáskórinn og ekki má gleyma Senu sem gaf öllum okkar heimilismönnum aðgang að jólagestum Björgvins. Við þökkum ykkur öllum af alhug. Þið glödduð heimilisfólkið okkar svo sannarlega. Takk kærlega.
22.12.2022
Það er jólakósý þennan morguninn. Sígilda jólamyndin HOME ALONE og makkarónur og súkkulaði. Hversu nettur morgun?
22.12.2022
Þessir menn tóku daginn snemma með skák.
Magnús Þór 8 ára, sonur Thelmu iðjuþjálfa, kíkti við og lék skák við Björn í Glaumbæ á 2. hæðinni. Þá tók Doddi íþróttafræðingur við og þá var það hraðskák, takk fyrir.
22.12.2022
Grundarbandið kom nýlega til okkar og lék fyrir dansi. Það er alltaf gaman þegar þau gleðja okkur með dúndrandi stuði og notalegri nærveru. Heimilisfólk og starfsfólk hrífst með og svífur um hátíðarsalinn í ljúfum dansi.
16.12.2022
Það var stemning í Ási þegar keppst var við að skreyta piparkökuhús fyrir keppnina um flottasta piparkökuhúsið. Dómnefndin var skipuð starfsmönnunum Veru Sigurðardóttur, Þresti Helgasyni og Benedikt Sigurbjörssyni. Keppnin var hörð og ekki mörg stig sem skildu að. Jólaþorp hjúkrunar hreppti fyrsta sætið, þá húsið í Ásbyrgi og í þriðja sæti varð húsið í Bæjarási. Þáttakan var frábær við gerð og kynningu húsanna.
16.12.2022
Jólasveinar kíktu í heimsókn í Mörk í gær og Skjóða kom með þeim. Það var dansað í kringum jólatré og Skjóða sagði skemmtilega sögu. Auðvitað mættu jólasveinarnir með poka og glöddu ungviðið með límmiðum og ávaxtanammi.