28.04.2023
Það var að venju fjör í hátíðasal heimilisins þegar Grundarbandið mætti í heimsókn til að spila fyrir dansi í vikunni. Þetta eru dásemdar stundir sem allir njóta.
26.04.2023
Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar kom í heimsókn í gær en hún er skipuð um 40 hljóðfæraleikurum á aldrinum 14 til 18 ára. Lék sveitin lög úr öllum áttum fyrir fullum hátíðasal.
24.04.2023
Það er viss kjarni í Íbúðum 60+ sem kemur alltaf síðdegis í heilsulindina og fær sér hressingu um leið og spjallað er um heimsmálin og lífið og tilveruna. Sumir skreppa áður í sund, skella sér í gufu eða líkamsrækt en aðrir koma bara til að setjast niður og spjalla við vini. Þessi hópur hittist í síðustu viku og borðaði saman svið og rófustöppu. "Dásamlegur félagsskapur og ekki skemmdu þessar frábæru veitingar fyrir", segir Laila Margrét Arnþórsdóttir sem er hjartað í heilsulind Markar en hún rekur heilsulindina ásamt Daða Hreinssyni
21.04.2023
Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.
19.04.2023
Það er í nógu að snúast á Grundarheimilunum því auk hefðbundinna verka í eldhúsum heimilanna er verið að baka 800 pönnukökur sunnan heiða og 400 í Ási. Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður síðan boðið upp á pönnukökurnar með kaffinu á Grund, Ási og í Mörk. Takið eftir að hún Rakel lætur sig ekki muna um að baka á fimm pönnum í einu.
14.04.2023
Mörk hjúkrunarheimili og LSH hafa gert með sér samning um aðstoð við geðeiningar Markar. Er það geðsvið Landspítala sem veitir þjónustuna sem lýtur að markvíslegri fræðslu og ráðgjöf. Á myndinni undirrita Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og Nanna Briem forstöðumaður geðheilbrigðisþjónustu Landspítala samninginn, sem gildir í þrjú ár.
04.04.2023
Það var svo sannarlega stuð í Mörk þegar hinn eini sanni Geirmundur Valtýsson kom og skemmti heimilisfólkinu okkar. Það var ekki hægt að sitja kyrr og hlusta því stuðið var svo mikið svo margir þustu út á gólf og tóku nokkur spor. Takk kærlega fyrir komuna og frábæra skemmtun.
02.04.2023
Ár hvert þegar peysufatadagurinn er haldinn hátíðlegur hjá Kvennaskólanum streyma til okkar á Grund prúðbúin ungmennin og gleðja heimilisfólk og starfsfólk með söng og gleði.
Takk fyrir heimsóknina, þið eruð skólanum ykkar til mikils sóma.
31.03.2023
Laugardaginn 11. mars var Söngsveitin 12 í takt með tónleika í hátíðasal Grundar. Tónleikarnir tókust vel og heimilisfólk söng með af innlifun. Þess má til gamans geta að einn úr sönghópnum, Magnús Halldórsson, er sonur Brandísar Steingrímsdóttur heimiliskonu á Grund.
10.03.2023
Þó það sé kalt úti þessa dagana þá er sól í sinni hjá okkur, verið að undirbúa páskana og guli liturinn allsráðandi. Hann minnir á vorið og sólina.