Páskaeggjabingó í Ási

Það var nýlega boðið upp á páskabingó í Ási. Veglegir súkkulaðivinningar og frábær stemmning.

Það eru að koma páskar

Páskastemningin er allsráðandi á vinnustofu Iðjuþjálfunar í Mörk. Flestir hafa áhuga á að þæfa lítil egg á greinar úr garðinum eða lita páskaegg.

Páskabingó á Litlu og Minni Grund

Það mátti heyra saumnál detta þegar leið á bingóspilið um aðalvinninginn í páskabingóinu á Litlu og Minni Grund sem haldið var nú í vikunni.

Njóta augnabliksins

Hvað er notalegra en setjast niður í góðum félagsskap, fá heita bakstra á axlir, hita á hendur og hlusta á fallegt ljóð eða lygna aftur augum og láta hugann reika. Það er nákvæmlega það sem heimiliskonurnar á Grund, Elín Sigríður, Sigurlaug og Þorbjörg Rafnar gerðu, einn morguninn fyrir skömmu.

Grundarkórinn kom saman á ný

Það var ánægjuleg stund þegar allur Grundarkórinn kom saman á æfingu í vikunni en hann hefur ekki hist saman í ár vegna Covid. Kórnum hefur verið skipt niður eftir svokölluðum sóttvarnarhólfum og þeir æft saman sem búa nálægt hver öðrum. Sannkölluð gleðistund.

Karlaklúbbur Markar brá sér á kaffihús

Karlaklúbburinn í Mörk brá sér á kaffihús þar sem kokkarnir buðu upp á dýrindis "smörrebrauð" að dönskum hætti og kökur ásamt því að skálað var í bjór. Það eru notaleg viðbrigði að geta á ný farið um húsið án þess að hafa miklar áhyggjur af Covid enda allir heimilismenn búnir að fá sprautu og starfsmennirnir fyrri sprautuna.

Rósabingó á Grund

Rósabingó. Hversu skemmtilegt. Það er nákvæmlega það sem þær Valdís og Þórhalla hafa verið að bjóða uppá víðsvegar um Grundina undanfarið. Ilmandi rós í verðlaun þegar maður kallar bingó. Til að toppa stundina hefur Nonni nikka, eins og við köllum hann Jón Ólaf hér á Grund, verið nálægt, með sína ljúfu nærveru og þanið nikkuna við söng heimilisfólksins. Það var svo auðvitað sungið um rósir... nema hvað.

Framkvæmdir ganga vel

Framkvæmdir Grundarheimilanna hafa gengið vel í vetur. Lokið er byggingu á nýjum matsal í Ási og breytingar á eldri matsal og eldhúsi eru mjög langt á veg komnar. Hönnun og smíði matsalarins hefur tekist með miklum ágætum. Salurinn er bjartur og rúmgóður auk þess sem hljóðvist er til mikillar fyrirmyndar. Þar er hægt að sitja og borða, spjalla við vinnufélaga og hlusta á fréttir án þess að nokkuð trufli. Óvenjulega góðar aðstæður. Og útsýnið út í garð til suðurs er dásamlegt, stórir gluggar og mikil birta. Á Grund eru breytingar á A2 á lokametrunum og verður vonandi hægt að taka eininguna í notkun á næstu dögum. Til eru orðin sex eins manns herbergi, hvert með sér baðherbergi í stað þeirra 10 herbergja sem áður voru á ganginum. Og þá voru engin einkabaðherbergi. Þetta er nútíminn og framtíðin. Óljóst er hversu hratt bráðnauðsynlegar breytingar sem þessar eru mögulegar á Grund og í Ási og liggur það fyrst og fremst í miklum kostnaði. Þvergirðingur ríkisins að greiða okkur sanngjarna húsaleigu fyrir þessa 14 þúsund fermetra sem við leggjum til öldrunar- og hjúkrunarþjónustu, að hluta til án þess að fá greiddan sannanlegan kostnað við rekstur húsnæðisins, kemur í veg fyrir að við getum breytt húsnæðinu með þeim hætti og á þann hraða sem við kjósum helst. Það segir sig sjálft að þetta fyrirkomulag gengur ekki til lengdar. Nú er verið að undirbúa breytingar á inngöngum á Grund og Litlu Grund ásamt því að merkja húsin. Einnig verður komið fyrir sorpskýli þar sem núverandi ljóti ruslagámurinn stendur í dag. Reikna með að þessum framkvæmdum verði lokið fyrir sumarið. Þá á eingöngu eftir að skipta um um það bil 30 glugga á Grund við Hringbraut af þeim verkefnum sem við fengum styrk til árið 2020 úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Það er mjög stórt verkefni sem hefur verið unnið að nær árlega í all mörg ár. Þrátt fyrir það eru nokkur ár í að því verki ljúki. Það eru margir gluggar á Grund. Allir þessir gluggar eru smíðaðir á trésmíðaverkstæði okkar í Ási í Hveragerði af okkar flinku smiðum og svo settir í af verktaka. Allar þessar framkvæmdir gera líf heimilis- og starfsmanna Grundarheimilanna léttara og betra. En það er mikið eftir þannig að ég kvíði ekki verkefnaleysi næstu árin. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Kæru aðstandendur

Gestir eru velkomnir í heimsókn Við miðum við að aðeins tveir megi heimsækja hvern og einn í einu til þess að koma í veg fyrir að of margir séu samankomnir í rýminu (börn fædd 2005 eða seinna undanskilin). Húsið er opið fyrir heimsóknir frá klukkan 13-18 alla daga Gestir þurfa að vera með maska við komu og spritta hendur Gestir fara beint á herbergi heimilismanna og dvelja ekki í sameiginlegum rýmum Gestir forðast beina snertingu við heimilismenn eins og hægt er Gestir muna tveggja metra nándarmörk Heimilismenn mega fara í heimsóknir til ættingja eða bíltúra en verða að gæta að almennum sóttvörnum og spritta hendur við komu á heimilið aftur 2. Maskanotkun Stóra breytinginn er að starfsfólk sem fengið hefur fyrri bólusetningu getur hætt að vera með maska við vinnu sína og þurfa ekki að vera með maska innan veggja heimilisins. Við förum áfram gætilega og auðvita geta komið tilvik þar sem setja þarf upp maska til dæmis ef ekki er hægt að virða tveggja metra reglu við aðstandendur, gesti eða aðra sem ekki eru bólusettir. Heimilismenn þurfa að nota maska í samræmi við sóttvarnarreglur þegar þeir fara af heimilnu. 3. Kaffi Mörk Heimilismenn og gestir þeirra eru velkomnir á Kaffi Mörk á meðan húsrúm leyfir. Munum að huga að sóttvörnum. Áfram er mikilvægt að hafa í huga að gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: • Eru í sóttkví eða bíða eftir niðurstöðum úr sýnatöku • Eru með einhver einkenni eins og kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, kviðverki eða niðurgang Ragnhildur

Sæl kæru aðstandendur

Síðustu starfsmenn Grundar fengu sína fyrri bólusetningu á föstudag og búið er að fullbólusetja flesta heimilismenn. Seinni bólusetningu með Astra Zenica sem stærsti hluti starfsmanna fékk (á aldrinum 18-65ára) er að vænta í maí. Þar til búið er að fullbólusetja starfsmenn þurfum við áfram að gæta vel að sóttvörnum. Embætti landlæknis hefur gefið út nýjar leiðbeiningar til hjúkrunarheimila og taka reglur og heimsóknartakmarkanir mið af þeim. Eftir 15/3 getum við sem hér búum og störfum og erum bólusett, farið á milli sóttvarnahólfa og þá gerum við ráð fyrir að félagslífið hjá okkur taki við sér. Við biðjum aðstandendur áfram að virða takmarkanir og halda sig við heimsóknir á herbergjum og að gestir fari ekki á milli sóttvarnahólfa. Heimsóknir Gestir eru velkomnir í heimsókn Við miðum við að aðeins tveir megi heimsækja hvern og einn í einu til þess að koma í veg fyrir að of margir séu samankomnir í rýminu (börn fædd 2005 eða seinna undanskilin). Húsið er opið fyrir heimsóknir frá klukkan 13-18 alla daga Gestir þurfa að vera með maska við komu og spritta hendur Gestir fara beint á herbergi heimilismanna og dvelja ekki í sameiginlegum rýmum Gestir muna tveggja metra nándarmörk Heimilismenn mega fara í heimsóknir til ættingja eða bíltúra en verða að gæta að almennum sóttvörnum og spritta hendur við komu á heimilið aftur. Maskanotkun Starfsfólk sem fengið hefur fyrri bólusetningu getur hætt að vera með maska við vinnu sína og þurfa almennt ekki að vera með maska innan veggja heimilisins eftir 15/3. Við förum áfram gætilega og auðvitað geta komið tilvik þar sem setja þarf upp maska til dæmis ef ekki er hægt að virða tveggja metra reglu við aðstandendur, gesti eða aðra sem ekki eru bólusettir. Heimilismenn þurfa að nota maska í samræmi við sóttvarnarreglur þegar þeir fara af heimilnu. Áfram er mikilvægt að hafa í huga að gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: Eru í sóttkví eða bíða eftir niðurstöðum úr sýnatöku Eru með einhver einkenni eins og kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, kviðverki eða niðurgang Það er heldur betur farið að birta og vorið á næsta leiti. Nú er lag að koma í heimsókn og fara í göngutúr með ykkar nánustu. Þið getið alltaf fengið lánaða hjólastóla hjá okkur. Mússa