Allar fréttir

Gárapar í hvíld á Grund

Það er algengt að fólk komi í hvíld á Grund í nokkrar vikur en það heyrir til undantekninga að gárapar komi í hvildarinnlögn til okkar. Gárarnir láta vel af dvölinni og fagna heimsóknum. Búrið þeirra er í anddyrinu hjá versluninni á Grund. Endilega kíkið við með ykkar aðstandendur og heilsið upp á parið.

Glens og gaman í Mörk

Það er ekki leiðinlegt að búa eða starfa á 2 hæðinni í Mörk, svo mikið er víst. Það var mikið um hlátrasköll og glens í morgun þegar heimilisfólkið var að koma fram og bjóða góðan dag.

Heit eggjakaka í morgunmat

Stundum er gott að bregða út af vananum og það er einmitt það sem gert var í eldhúsinu á Litlu Grund fyrir síðustu helgi. Þá ákvað starfsfólkið að skella í eggjaköku og bjóða með hafragrautnum og því venjulega sem er á boðstólum á morgnana. Það var almenn ánægja með tilbreytinguna.

Notaleg stund

Það var notaleg stemningin í Bæjarási nú í vikunni og það sést auðvitað ekki á mynd en það var sungið á meðan var verið að greiða og punta: Þær eru að fara á ball. Góða helgi öll.

100 ára afmæli Garðars og Grundar

Það var hátíðlegt á fjórðu hæðinni í Mörk í gær þegar Garðar Sigurðsson heimilismaður fagnaði 100 ára afmæli. Svo skemmtilega vill til að hann á aldarafmæli sama ár og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Boðið var upp á heitt súkkulaði og rjómatertu á öllum Grundarheimilunum af þessu tilefni. Aðstandendur Garðars og heimilismenn á fjórðu hæðinni fögnuðu með honum, Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna mætti í afmælisboðið, blaðamaður Morgunblaðsins tók við afmælispiltinn viðtal og síðan var spilað á gítar og sungið.

Sigraði í þorrabingói

Árni Friðrik sigraði Þorrabingó Grundar 2022. Hann fékk bindi og klút í verðlaun sem hann var ekki lengi að skreyta sig með.

Þorramatur og létt yfir mannskapnum

Það var létt yfir mannskapnum í Mörk í dag enda boðið upp á þorramat og allt sem honum tilheyrir. Svei mér þá ef Covid var ekki bara gleymt og grafið í smástund. Góða helgi

Þorramatur og tóm gleði

Öll PCR próf sem voru tekin í dag reyndust neikvæð. Það var stemning í hádeginu hjá okkur á Litlu og Minni Grund og loksins fengum við þorramatinn. Flestir eru lausir úr einangrun en þó ekki allir og við opnum fyrir heimsóknir á Litlu og Minni Grund á ný næsta þriðjudag. Við erum fegin að sjá fyrir endann á þessu og förum glöð inn í helgina

Herrarnir fengu allir glaðning

Bóndadagurinn var fyrir nokkru og pínulítið seint að birta þessar myndir en stóðumst bara ekki mátið. Herrarnir á Grund fengu allir glaðning á bóndadaginn og voru alsælir. Harðfiskur og smjör féll í kramið en líka malt og appelsínið og súkkulaðið.

Þorrinn kom siglandi í Mörk

Heimilisfólk í Mörk útbjó þessa skemmtilegu þorraskreytingu sem prýðir anddyri heimilisins. Þorrinn að sigla inn í matsalinn sem á vel við þar sem kræsingarnar þessa dagana hafa borið keim af súrmeti og því sem tilheyrir þessum þjóðlega tíma.