Allar fréttir

Mættu með blóm í afmæliskaffi

Hússtjórnarskólinn í Reykjavík fagnar 80 ára starfsafmæli á þessu ári og í síðustu viku var haldið upp á afmælið. Gestum gafst kostur á að kíkja í kennslustundir og skoða það sem nemendur eru að gera dags daglega. Boðið var upp á afmælisköku og kaffi. Tvær heimiliskonur mættu í afmælið, enda skólinn svo að segja í næsta húsi. Þær færðu skólanum blómvönd frá Grund og skoðuðu starfsemina.

Afhenti heimilismönnum afmælisgjöf frá Grund

Í tilefni aldarafmælis Grundar var gefið út afmælisrit um heimilið, saga Grundar í 100 ár. Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, fór um heimilið og færði heimilismönnum bókina að gjöf auka borðdagatals með gömlum myndum frá Grund. Gísli Páll segir þessar heimsóknir hafa veitt sér gleði og hann er mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til að spjalla við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar. Hann segir að margir hafi verið afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum. Ýmislegt kom til tals. Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum. Gísli Páll segir að það hafi verið notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel á heimilunum. Það voru feðginin sr. Guðmundur Óskar Ólafsson og Guðbjörg R Guðmundsdóttir sem rituðu bókina, Guðmundur Óskar sá um að rita 75 ára sögu heimilisins fyrir aldarfjórðungi og síðan bætti dóttir hans Guðbjörg við 25 árum svo úr varð 100 ára saga heimilisins.

Kaffisamsæti í betri stofunni

Það var notalegt kaffisamsætið sem Ísafold og Ásta héldu á fjórðu hæðinni hér á Grund í vikunni. Betri stofan á Vegamótum hefur fengið smá andlitslyftingu svo það er um að gera að njóta hennar í góðra vina hópi.

Heimilismenn buðu aðstandendum í afmæliskaffi

Alla síðustu viku buðu heimilismenn aðstandendum í afmæliskaffi til að halda upp á aldarafmæli heimilisins. Á mánudag var afmæliskaffi í Mörk, á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag á Grund og á föstudag í Ási. Það voru dúkuð borð, fánar og blóm og boðið upp á heitt súkkulaði og allskyns meðlæti. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna flutti ræðu og á Grund tók Grundarkórinn lagið alla dagana þrjá og Sigrún Erla Grétarsdóttir söng nokkur lög við undirleik Kristófers H. Gíslasonar. Notaleg samverustund heimilismanna með sínu fólki á þessum stóru tímamótum Grundar. Ljósmyndir tók Viktoría Sól Birgisdóttir.

100 ára afmæli Grundar fagnað

Það ríkti góð stemning í hátíðarsal Grundar þann 29. október síðastliðinn þegar heimilið fagnaði 100 ára afmæli. Boðsgestir streymdu í salinn um miðjan dag til að heiðra heimilið, fluttu ávörp og komu færandi hendi með blóm og aðrar góðar gjafir. Móttakan hófst með ávarpi forseta Íslands, þá ræðu Jóhanns J. Ólafssonar stjórnarformanns Grundar, ræðu Gísla Páls Pálssonar forstjóra Grundarheimilanna og ræðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Gissur Páll Gissurarson söng nokkur lög og endaði á afmælissöngnum. Þá veitti Öldrunarráð Íslands styrk sem ráiðið veitir árlega í nafni Gísla Sigurbjörnssonar fyrrum forstjóra Grundar og formaður Sjómannadagsráðs Ariel Pétursson færði afmælisbarninu táknræna styttu og Dirk Jarré formaður Eurag, evrópskra öldrunarsamtaka færði heimilinu listaverk.

Bleik Grundarheimili

Öll Grundarheimilin skarta bleiku í ár, í afmælismánuði Grundar sem fagnar aldarafmæli á morgun, laugardaginn 29. október.

Fólk og fjársjóðir

Thelma Hafþórsdóttir Byrd er iðjuþjálfi í Mörk og hér skrifar hún fallega hugleiðingu um fólk og fjársjóði.

Fræðsla fyrir starfsfólk Grundarheimilanna

Um þrjátíu starfsmenn Grundarheimilanna sóttu fræðslu sem líknarteymi LSH hélt í síðustu viku í hátíðarsal Grundar. Að auki voru 19 starfsmenn í fjartengingu. Gagnleg og góð fræðsla.

Samverustund í setustofu

Á þriðjudögum og fimmtudögum er opið hús í setustofu Grundar á þriðju hæð. Þar er ýmislegt haft fyrir stafni, málað, prjónað, sungið og spjallað. Þessa dagana er verið að útbúa listaverk með haustlaufum.

Fagnar aldarafmæli eins og Grund

Það var hátíð á öllum Grundarheimilunum í gær þegar heimiliskonan Sigrún Þorsteinsdóttir fagnaði aldarafmæli sínu. Hún býr á Ási í Hveragerði. Sigrún er einmitt á sama aldri og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Í tilefni dagsins var flaggað á öllum heimilunum, bornar fram marsípantertur og boðið upp á heitt súkkulaði. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna heimsótti Sigrúnu, færði henni blómvönd og spjallaði við afmælisbarnið. Til hamingju elsku Sigrún.