14.02.2023
Á morgun, miðvikudaginn 15. febrúar, hefst að öllu óbreyttu verkfall hjá vörubílstjórum og bílstjórum olíudreifingar. Það mun að öllum líkindum hafa einhver áhrif á starfsemi Grundarheimilanna og því miður má gera ráð fyrir skerðingu á þjónustu og starfsemi. Við höfum tryggt eldsneyti í nokkrar vikur til að tryggja flutning á matvælum og þvotti milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Ennfremur er birgðastaða nokkuð góð hjá okkur bæði hvað varðar mat og hjúkrunarvörur og sumir birgjar eru með rafmagnsbíla. Þá höfum við aðgang að nokkrum rafmagnsbílum og strætó hefur gefið út að þeir hafi eldsneytisbirgðir í tíu til fjórtán daga. Grundarheimilin eru aðili að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og hafa þau sótt um undanþágur fyrir starfsfólk aðildarfélaga að eldsneyti og lagt áherslu á að samgöngutæki fái að ganga. Binda samtökin vonir við að þær undanþágur verði veittar. Að sjálfsögðu munum við eftir bestu getu reyna að draga úr áhrifum verkfallsins á starfsemi Grundarheimilanna.
01.02.2023
Stefnt er að því að hefja í vor framkvæmdir við laufskála/kaffihús við Grund á Hringbraut. „Vonandi tekst okkur að opna kaffihúsið öðrum hvorum megin við áramótin næstu,“ segir Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna í samtali við Morgunblaðið í gær, mánudag.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut. Um er að ræða 112 fermetra hús og 520 fermetra lóðarfrágang. Kostnaðaráætlun er rúmlega 150 milljónir króna. Laufskálinn verður sjálfstæð bygging sem tengist aðalbyggingunni með yfirbyggðum gangi. Þarna verður kaffihús fyrir heimilisfólk og aðstandendur, leiksvæði fyrir börnin og hægt að opna út á verönd og sitja þar í sólinni. Í umsókn ASK-arkitekta til borgarinnar kemur fram að laufskálinn/ garðskálinn og útivistarsvæði séu hugsuð sem dvalarsvæði fyrir íbúa Grundar, þar sem þeir geti tekið á móti gestum í skjólsælu og sólríku umhverfi. Leiksvæði, gönguleiðir og dvalarsvæði uppfylli skilyrði um aðgengi fyrir alla. Þá geti viðburðir farið þarna fram, eins og tónleikar. Hönnun lóðarinnar er unnin af Landslagi ehf.
26.01.2023
Kristján Sigurðsson kom reglulega á aðra hæð í Mörk þegar tengdamóðir hans Lára Þorstensdóttir var þar heimiliskona. Eftir að hún lést hefur hann haldið tryggð við hæðina og mætir oft til okkar með gítarinn og tekur lagið. Það eru sannkallaðar gleðistundir þegar Kristján kemur í heimsókn.
26.01.2023
Það er gefandi að sjá hversu notalegt fólkið okkar hefur það sem mætir á samverustund á þriðju hæð Grundar. Sem fyrr engin dagskrá en fólk kemur bara og dundar sér við það sem hugur stendur til. Spjall, prjónaskapur og hvers kyns listsköpun. Sumir koma svo bara við til að hitta fólk, spjalla og eiga góða stund.
23.01.2023
Á bóndadaginn var efnt til söngstundar í setustofu á þriðju hæð Grundar þar sem heimilisfólk söng minni karla og ýmis lög sem tengjast þorranum. Að sjálfsögðu var svo boðið upp á þorramat á Grund.
23.01.2023
Það var aldeilis huggulegt á 2. hæðinni í Mörk á bóndadaginn. Þorramaturinn rann ljúflega niður og andrúmsloftið að venju létt og notalegt.
20.01.2023
Það þarf ekkert endilega skipulagða skemmtidagskrá til að brjóta upp daginn. Stundum nægir bara samvera og sumir kjósa að dunda sér á meðan við prjónaskap, mála kannski, teikna eða lesa. Svo gerir náttúrulega útslagið að fá heitan bakstur á axlirnar.
20.01.2023
Þegar veðrið er ekkert ýkja gott er yndislegt að hlusta á góða sögu og kannski kúra undir teppi líka. Svoleiðis stund á annarri hæðinni í Mörk.
17.01.2023
Reglulega er blásið til samverustundar í setustofunni á þriðju hæð Grundar. Það er engin dagskrá, bara samvera. Sumir prjóna, aðrir lita eða mála, leysa krossgátur eða spjalla bara við sessunauta. Jón Ólafur mætir svo oft með nikkuna og tekur nokkur lög og oftar en ekki fer heimilisfólk að raula með þegar lögin eru kunnugleg. Virkilega notalegar samverustundir.
13.01.2023
Kæru aðstandendur
Heilbrigðisyfirvöld mæla með Covid örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma ef liðnir eru 4 mánuðir eða meira frá síðustu bólusetningu.
Í janúar munum við bjóða þeim sem þar sem liðið er meira en 4 mánuðir frá síðustu bólsetningu upp á Covid örvunarbólusetningu.
Við biðjum ykkur um að láta okkur vita eins fljótt og þið getið ef þið eruð alfarið á móti því að ykkar aðstandandi fái örvunarskammt. Best að láta viðkomandi deildarstjóra vita eða senda póst á sigridur@grund.is